Íslensku lýsingarverðlaunin 2020
Alls voru 17 verkefni tilnefnd til verðlaunanna í ár.
Vinninngshafar Íslensku lýsingarverðlaunanna 2020

Lýsingarverkefni innanhúss
The Retreat at the Blue Lagoon
"The Retreat at the Blue Lagoon er fimm stjörnu hótel og heilsulind staðsett í miðju hrauninu sem umkringir lónið. Þarna sameinast veitingarstaður sem býður uppá íslenska matararfleifð, gistiaðstaða með glæsilegum herbergjum og steinefna ríkt Bláa lónið sem umkringir bygginguna. The Retreat opnar dyrnar fyrir töfrandi ferðalag sem samanstendur af slökun, endurnæringu og könnunarleiðangri þar sem hugur og líkami komast í nánd við náttúruna. Þetta er staður til að vinda ofan af amstri daglegs lífs og opnar dyrnar að einu af undrum veraldar."
"Til að varðveita töfra og innblásturinn sem náttúruleg íslensk lýsing býr yfir var arkitektónísk lýsing hönnuð til að skapa slakandi andrúmsloft og undirstrika sambandið milli náttúrunnar, mannslíkamans og arkitektúrsins. Grunnhugmyndin var sú að bjóða upp á hágæða og persónulega nálgun þegar kemur að gestrisni. Lagt var upp með heildræna nálgun, sérsniðna að yfirbragði arkitektúrsins, í þeim tilgangi að undirstrika form og blæbrigði umhverfisins.
Hugmyndafræðin á bak við lýsinguna byggði á því að skapa auðmjúkt samband milli arkitektúrs, náttúru og líffræði í rýmum byggingarinnar. Með þessa hugmyndafræði að leiðarljósi tókst að skapa hágæða og jafnframt einstaka rýmisupplifun þar sem ljósvist og arkitektúr vinna saman sem eitt." -segir í lýsingu hönnuðar á verkefninu.
LÝSINGARHÖNNUÐUR
- Guðjón L. Sigurðsson, Reynir Örn Jóhannesson, Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, Sandra Dís Sigurðardóttir, Liska
AÐRIR HÖNNUÐIR OG SAMSTARFSAÐILAR
- Basalt arkitektar, Design Group Italia, Bláa Lónið, Verkís
VERKKAUPI
ÁR
2018

Lýsingarverkefni utanhúss
Gamla Steinbryggjan
"Gamla Steinbryggjan kom í ljós þegar framkvæmdir við Tryggvagötu voru töluvert á veg komnar. Gamla bryggjan reyndist ótrúlega heil og ákvað Landmótun, í samráði við Reykjavíkurborg og Mannvit að innfella þessu sögufrægu bryggju inn í þáverandi hönnun á svæðinu."
Lýsingarhönnunin
"Hugmyndafræði verksins er innblásið af sænum, sögu og tengingu nærumhverfis við bryggjuna sjálfa í gegnum tímann. Frá byrjun voru bæði landslagsarkitekt og lýsingarhönnuður mjög vör um mikilvægi bryggjunnar í sögulegu samhengi og þeirri tengingu sem ný hönnun þyrfti að taka mið af.
Við hönnun lýsingar á svæðinu er borinn virðing fyrir gömlu bryggjunni og yfirborði hennar haldið óupplýstu að mestu. Hófstillt, dimmanleg lýsing umkringir bryggjuna og er hún að mestu falin í bekkjum, handriðum og veggjum ásamt því að sérhannaðir lampar vaka yfir bryggjunni. Umhverfi svæðisins myndar þannig jafnvægi við annars óupplýsta bryggju.
Hönnun svæðisins og lýsing gömlu Steinbryggjunnar eru ein heild og ber að líta á hana sem slíka. Hún er samspil gamalla og nýrra tíma. Í stað þess að gleyma því liðna er gömlu bryggjunni fagnað með umgjörð og ljósi. Hún virkar einföld í sniði, liggur vel í umhverfi sínu og kallar ekki á athygli, en þegar staldrað er við horft í kringum sig má finna í gegnum hönnun og lýsingu ótal atriði sem vísa í sögu svæðisins og næsta umhverfi." -segir í lýsingu hönnuðar á verkefninu.
LÝSINGARHÖNNUÐUR
- Andri Garðar Reynisson, Mannvit
AÐRIR HÖNNUÐIR OG SAMSTARFSAÐILAR
- Landslagsarkitekt: Landmótun
- Lóðaþjónustan verktakar
VERKKAUPI
ÁR
2019

Opinn flokkur
Organs
"Frá árinu 2007 hafði Sigga Heimis, iðnhönnuður unnið með glerlíffæri sem framleidd voru af hinu virta glerlistasafni Corning Museum of Glass í New York (CMOG) og sýnt þau víða um heim.
Með tilkomu nýrrar reglugerðar á Íslandi, sem gerir alla íslendinga sjálfkrafa að líffæragjöfum, spratt upp sú hugmynd að setja af samsýningu til þess að vekja athygli og til að fræða fólk um mikilvægi líffæragjafar en að meðaltali eru um 30 manns í mikillri þörf fyrir líffæragjöf á hverju ári hér á landi. Lýsingarhönnuðurinn Kristján Kristjánsson var einn af þeim sem tók þátt í sýningunni með það hlutverk að lýsa upp líffærin.
Sýningin opnaði í Ásmundarsal þann 11. Janúar 2019 og var opin til 17.Febrúar 2019.
Lýsingarhönnunin
Hvert líffæri fékk sína sérstöðu í lýsingarhönnuninni en samspil milli lita, forms, áferðar og gagnsæi glersins var notað til að ná fram hreyfingum og eiginleikum líffæranna. Mismunandi ljósasenur voru forritaðar til að herma eftir hreyfingum og virkni líffæranna til að sýna fram á einkenni líffæranna þegar þau eru virk í mannslíkamanum. Úr varð áhrifamikið og lifandi sjónarspil umhverfis listaverkin.
Notast var við endurnýttar ljósdíóður (LED) sem er ákveðin vísun í líffæragjöf þar sem líffærin hafa oftast lokið sínu verkefni í einum mannslíkama og eru endurnýtt sem lífsgjöf fyrir annan mannslíkama. Hver innsetning samanstóð af ljósdíóðum sem voru felldar inn í listaverkin til að ná fram ákveðnum ljósvörpum.
Ljósasenur glerlíffæranna fóru í gegnum tímalínu sem lýsti upp hvert líffæri fyrir sig og var miðpunktur ljósasenunnar þegar öll líffærin spila saman sem ein heild. Á endanum slokknaði á einu líffæri í einu þangað til að heilinn sýndi enga virkni og við það hófst tímalínan upp á nýtt.
Margmiðlun, hljóð og lýsing voru samstillt í tímalínu til að mynda eina heild og undirstrika fegurð glerlíffæranna og þá lífsgjöf sem líffæragjöf er." - segir í lýsingu hönnuðar á verkefninu.
LÝSINGARHÖNNUÐUR
- Kristján Kristjánsson
AÐRIR HÖNNUÐIR OG SAMSTARFSAÐILAR
- Sigga Heimis,
- Gagarín,
- Gunnar Árnason,
- Arnar Leifsson,
- Corning Museum of Glass USA
VERKKAUPI
ÁR
2019

Lampar og ljósabúnaður
Sole-Luna
"Sole Luna er lampi sem var sérstaklega hannaður fyrir The Retreat at the Blue Lagoon í samstarfi við iGuzzini sem framleiddu lampann. Hugmyndarfræði Sole-Luna er að framlengja töfra náttúrulegrar birtu á Íslandi inn í hótelherbergin og skapa svipuð áhrif eins og fást frá sólinni og tunglinu. Lampinn er festur á bak við dúkaloft þannig að ljósið síast í gegnum himnu dúksins. Þar sem ljósbúnaðurinn er staðsettur á bak við dúkinn sést sjálfur búnaðurinn ekkert.
Ljósahönnunin
Gestir hótelsins geta stýrt lýsingunni frá Sole-Luna með stýringu sem innbyggð er í rúmgaflinn og gerir þeim kleift að virkja mismunandi ljósasenur svo sem fyrir slökun, orku, dag og nótt. Þá er möguleiki á að framkalla lýsingu sem samsvarar tunglinu með svipuðum dökkum blettum og sjást á því með því að notast við blöndu af 4000K og 6000K ásamt því að slökkt er á nokkrum díóðum.
Einnig er möguleiki á því að bóka vakningu sem vekur gesti með ljósi sem stigmagnast hægt og rólega í fimm mínútur. Styrkur birtunnar fer úr 0% í 90% og frá hlýrri birtu yfir í kaldari birtu en þannig fá gestir tækifæri til að vakna hægt og rólega án þess að notast við hljóð.
Lampinn er 1,2m í þvermál og er samansettur af ljósdíóðum (LED) sem gefa frá sér mismunandi litarhitastig; 2100K, 4000K og 6000K. Styrkur birtunnar getur verið allt frá 1 lux og upp í u.þ.b. 1500 lux með 204 rafmagnsgreinum og sjö LED borðum sem tengjast inná hverja grein. Búnaðurinn er stýrður með DMX stýringu til þess að ná fram þeim ljósgæðum sem óskað var eftir." - segir í lýsingu hönnuðar á verkinu.
LÝSINGARHÖNNUÐUR
-
-
- Guðjón L. Sigurðsson, Liska ehf.
-
AÐRIR HÖNNUÐIR OG SAMSTARFSAÐILAR
- Basalt arkitektar,
- Design Group Italia,
- iGuzzini,
- Bláa Lónið
VERKKAUPI
ÁR
2018