Skip to main content

Sagan

Stiklur úr sögu Ljóstæknifélags Íslands

Í tilefni af 50 ára afmæli Ljóstæknifélag Íslands hefur Aðalsteinn Guðjohnsen tekið saman stiklur úr sögu félagsins en þar sem gögnum félagsins var hent úr húsnæði Háskóla Íslands vantar mikið af heimildum og lesendur eru því beðnir að senda inn ábendingar um það sem betur má fara eða vantar.

1938 
Eftir virkjun Ljósafoss fær Rafmagnsveita Reykjavíkur (RR) danskan verkfræðing frá Osramfélaginu í Kaupmannahöfn, Ewertz að nafni, til að halda fyrirlestra um ljósgjafa og lýsingu í sal Nýja Bíós í Reykjavík.

1943
Samband íslenskra rafveitna (SÍR) stofnað. Rætt um stofnun félags um lýsingu.

1948
Lysteknisk Selskab stofnað í Danmörku.

1951
SÍR fær ritara LTS, Ib Ovesen, til að halda fyrirlestra hér á landi. Fjalla þeir um danska félagið, grundvöll góðrar lýsingar og lýsingu á ýmsum vinnustöðum.

1954
Rafmagnsverkfræðingadeild Verkfræðingafélagsins (RVFÍ) undirbýr stofnun félagsins. Steingrímur Jónsson, rafmagnsstjóri, kjörinn formaður bráðabirgðastjórnar.
Sylvester Guth, forstöðumaður rannsóknarstofu National Electric Light Association (NELA) í Bandaríkjunum heldur fyrirlestra við stofnun hins nýja félags.
Ljóstæknifélag Íslands (LFÍ) stofnað 22. október í 1. kennslustofu Háskóla Íslands. Í lögum LFÍ er þess frá upphafi gætt að stjórnina skipi m.a. fulltrúar frá samtökum rafveitna, augnlækna, iðnrekenda, arkitekta, rafvirkjameistara og lampaseljenda. Stofnfélagar eru alls 78. Í fyrstu stjórn sitja: Steingrímur Jónsson, formaður, Jakob Gíslason, raforkumálastjóri, ritari, Hans R. Þórðarson, stórkaupmaður, gjaldkeri, Bergsveinn Ólafsson, augnlæknir, Guðmundur Marteinsson, rafmagnseftirlitsstjóri, Júlíus Björnsson, rafvirkjameistari, og Hannes Kr. Davíðsson, arkitekt, – meðstjórnendur.

1955
LFÍ gengur í Alþjóðalýsingarsambandið CIE (Commission Internationale de l’Eclairage).
Jakob Gíslason, sem unnið hafði að stofnun LFÍ sem formaður RVFÍ, sækir alþjóðaþing CIE í Zürich.
Eggert Steinsen, rafmagnsverkfræðingur, flytur erindi á félagsfundi um Grundvöll lýsingar og birtutöflur.

1956
Aðalsteinn Guðjohnsen, rafmagnsverkfræðingur, fer í kynnisferð fyrir LFÍ, – heimsækir höfuðstöðvar CIE í París og ljóstæknifélögin í Bretlandi og á Norðurlöndum.
Hann tekur við kennslu í lýsingartækni í rafmagnsdeild Vélskólans í Reykjavík. Notuð er í fyrstu kennslubók eftir Georg Weber í þýðingu Gunnars Bjarnasonar, skólastjóra.

1957
Fast samband er komið á milli LFÍ og ljóstæknifélaganna á hinum Norðurlöndunum. Óformlegt heiti þessa samstarfs verður Nordlys. Reglulegir fundir eru haldnir til skiptis í löndunum fimm.
Fyrsta norræna þingið eftir stofnun LFÍ og það fjórða frá upphafi, er haldið í Stokkhólmi. Frá LFÍ sækja það 2 þátttakendur frá LFÍ, þeir Aðalsteinn Guðjohnsen og Kristinn Guðjónsson, stjórnarmaður. Auk þeirra sækir þingið Gísli Jónsson, rafmagnsverkfræðingur.

1958
Í fjölrituðu riti LFÍ (nr.10) er að finna yfirlit yfir erindi á fyrstu fundum félagsins. Þar er m.a fjallað um grundvöll lýsingar, birtutöflur, viðhald lýsingarkerfa, tilrauna- og mælingastofu, umferðarlýsingu, bifreiðalýsingu, lýsingu og augnþreytu og mælingar á himinskærleika í Reykjavík. Meðal flutningsmanna eru Gísli Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, Aðalsteinn Guðjohnsen, Bergsveinn Ólafsson og Steingrímur Jónsson.
Svokölluð mælistofunefnd er stofnuð en þegar í upphafi er ljóst að verkefnið reynist erfitt fjárhagslega. Ekki tekst því að koma fyrirhugaðri mælistofu LFÍ á fót.

1959
Aðalsteinn Guðjohnsen tekur að sér að vera framkvæmdastjóri LFÍ. Krisinn Guðjónsson, forstjóri, hefur tekið sæti í stjórn í stað Júlíusar Björnssonar.
Alþjóðaþing CIE er haldið í Brüssel. Formaður, framkvæmdastjóri og Kristinn Guðjónsson, stjórnarmaður, sækja þingið.

1960
Ivar Folcker, formaður sænska félagsins Svenska Föreningen för Ljuskultur, flytur erindi á aðalfundi LFÍ um Þróun raflýsingar.
Á öðrum fundi eru flutt erindin Ljós og lýsing á liðnum öldum (Jón Á. Bjarnason, rafmagnsverkfræðingur), Kennsla í lýsingartækni (Jón Sætran, raffræðingur), Lýsing frá sjónarhóli arkitektsins (Skúli Norðdahl, arkitekt) og Lýsing og öryggi á vinnustað (Þórður Runólfsson, öryggismálastjóri).

1961
Rolf Aspestrand, framkvæmdastjóri norska félagsins Selskapet for Lyskultur flytur erindi um Ljós og liti í iðnaði.
Raftækjaverksmiðjan Rafha er skoðuð. Fulltrúi frá danska fyrirtækinu Louis Poulsen heldur fyrirlestur á fundi LFÍ.
Alþjóðlegt ljóstækniorðasafn er þýtt af orðanefnd LFÍ og gefið út fjölritað. Í því er einnig að finna skilgreiningu á hverju orði og hugtaki.

1962
Lýsing í kirkjum er rædd á fjölmennum fundi. Kirkjunnar menn taka þátt í umræðum ásamt tæknimönnum og arkitektum.
Hafin eru kvöldnámskeið í lýsingartækni, og síðar kennsla í Iðnskólanum í Reykjavík. Meðal kennara er Ólafur S. Björnsson, raffræðingur.

1963
Steingrímur Jónsson lætur af störfum sem formaður að eigin ósk.
Aðalsteinn Guðjohnsen er kjörinn formaður. Stjórnin er óbreytt að öðru leyti.
Á fundi er fjallað um lýsingu í skólum. Kirkjulýsing er tekin fyrir öðru sinni og sænskur arkitekt, Samuel Fränne, flytur allmarga fyrirlestra með fjölbreyttri myndasýningu.
Út kemur bókin GÓÐ LÝSING – almenn hugtök og reglur, samin af Aðalsteini Guðjohnsen, gefin út af Iðnskólaútgáfunni. Bókin er að verulegu leyti byggð á bók sama efnis útgefinni af sænska félaginu Svenska Föreningen för Ljuskultur.
Alþjóðaþing CIE er haldið í Vín. Formaður sækir þingið ásamt Kristni Guðjónssyni, stjórnarmanni.
Steingrímur Jónsson er kjörinn heiðursfélagi LFÍ.

1964
Lýsing í verslunum er rædd á félagsfundi.
Magnús Oddsson, tæknifræðingur, tekur við sem framkvæmdastjóri LFÍ.
Á 10 ára afmælisári félagsins eru félagar orðnir 182, þar af 29 stofnanir, fyrirtæki og félög en 153 einstaklingar = 182 (29 + 153).

1965
Námskeið er haldið fyrir afgreiðslufólk í lampaverslunum. Fræðslufundir eru haldnir á Siglufirði, Sauðárkróki og Akureyri.
Norrænt ljóstæknimót er haldið í fyrsta sinn á Íslandi. Mótið, NLM-65, er haldið í Hagaskóla í Reykjavík og þátttakendur eru 148, þar af 65 Íslendingar. Mótinu eru gerð ítarleg skil í sænska ritinu Ljuskultur. Guðmundur Marteinsson er formaður undirbúningsnefndar og nýtur aðstoðar Gunnlaugs Pálssonar, arkitekts. Framkvæmdastjóri nefndarinnar er Sigurður Briem, rafmagnsverkfræðingur.

1966
Flutt eru erindi hjá ýmsum aðilum í Reykjavík samkvæmt sérstökum óskum. Á félagsfundum eru flutt erindi um Lýsingu á vinnustöðum utanhúss, svo og um Götulýsingu. Einnig eru flutt erindi um efnið Augu-lýsing-umferðarslys frá ráðstefnu í Þýskalandi, um Gæði lýsingar frá fundi enska félagsins IES og um Hitun af völdum lampa.

1967
Alþjóðaþing CIE er haldið í Washington í Bandaríkjunum. Formaður sækir þingið en þar sjá norrænu félögin sameiginlega um fundarefnið Lýsingarhætti innanhúss.
Formaður hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra um hríð, en nú er Kolbeinn Pétursson, tæknifræðingur, ráðinn í starfið. Hann flytur erindi um Blöndun lita, litfræði og notkun hennar fyrir litasjónvarp.
Guðmundur Marteinsson gengur úr stjórn en Ólafur S. Björnsson, verksmiðjustjóri, er kjörinn í hans stað.

1968
Á fundum skýrir formaður frá þingi CIE í Washington, Magnús Oddsson fjallar um Iðnaðarlýsingu og Kolbeinn Pétursson um Ljósvarma.
Þá flytur Daði Ágústsson, tæknifræðingur, erindi um BZ-aðferðina (BZ = British Zonal Method) í félagsbréfi, en aðferðin hefur rutt sér til rúms við útreikninga á lýsingarkerfum, þ.m.t. birtu og glýjustigi.
Skrifstofa LFÍ er flutt úr Hafnarhúsinu á Laugaveg 26 þar sem Byggingarþjónusta Arkitektafélags Íslands er. Þar er settur upp sýningarbás og almenningi veitt fræðsla. Í mars er þar opnuð viðamikil sýning á rafljósabúnaði og rafhitunartækjum. Í apríl er farið með sýninguna til Akureyrar og hún opnuð í Landsbankasalnum.
Daði Ágústsson er ráðinn framkvæmdastjóri félagsins.

1969
Bifreiðaljósanefnd og fræðslunefnd starfa allnokkuð. Framkvæmdastjóri fjallar um Lýsingu í íþróttahúsum og á íþróttavöllum. Hann flytur erindi ásamt Skúla Norðdahl um Gæðamat lýsingarkerfa.
Norræna ljóstæknimótið er haldið í Bergen. Framkvæmdastjóri greinir frá því í félagsbréfi LFÍ. Hann ritar einnig grein um Iðnaðarlýsingu í félagsbréfið. Gefið er út LÍF Í LJÓSI, vandað rit um heimilislýsingu, myndskreytt og litprentað. Það er m.a. selt rafveitum landsins sem margar hverjar senda það öllum rafmagnsnotendum. Ritið er þýðing á sænsku riti sama efnis.
Sænska kvikmyndin „Líf í ljósi“, með íslenskum texta eftir framkvæmdastjóra og Hersi Oddsson, er sýnd í Sjónvarpi allra landsmanna.

1970
Á aðalfundi flytur framkvæmdastjóri erindi um Lýsingu í sjúkrahúsum. Hann flytur á haustfundi fyrirlestur, ásamt Axel Magnússyni garðyrkjuráðunaut, um Lýsingu í gróðurhúsum.
Framkvæmdastjóri heimsækir Osram- verksmiðjurnar í München. Haldinn er í Stokkhólmi fundur framkvæmdastjóra norrænu ljóstæknifélaganna. Framkvæmdastjóri kennir lýsingartækni í Iðnskólanum í Reykjavík. Hann heldur einnig fyrirlestra fyrir rafveituna á Egilsstöðum, Iðnskóla Akureyrar, garðyrkjubændur í Borgarfirði og Tækniskóla Íslands.
Hannes Kr. Davíðsson lætur af stjórnarstörfum. Við tekur Skúli H. Norðdahl, arkitekt.

1971
Framkvæmdastjóri heimsækir bandaríska ljóstæknifélagið í New York og lýsir þeirri heimsókn á félagsfundi. Einnig sækir hann ársfund IES í Chicago. Undirbúin er bók um götulýsingu. Formaður sækir Alþjóðaþing CIE í Barcelona, ásamt Kristni Guðjónssyni stjórnarmanni.
Námskeið er haldið í Útreikningum á birtu og fyrirlestrar um Heimilislýsingu fyrir Kvenréttindafélag Íslands og í Tækniskóla Íslands um Lýsingartækni.
Birtumælingar eru gerðar í nær öllum frystihúsum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna.
Þriggja daga námskeið um Skipulag lýsingarkerfa innanhúss haldið í nóvember að Laugavegi 26 undir kjörorðinu „Bætt lýsing – Betra líf“.

1972
Bókin Götulýsing kemur út í samantekt Daða Ágústssonar. Framkvæmdastjóri ritar grein um flóðlýsingu bygginga í félagsbréf LFÍ. Sýndar eru fjórar fræðslukvikmyndir á aðalfundi: sænsk mynd um Líf í ljósi og myndir um halógenlampa, um framleiðslu og notkun á flúrpípum og kvikasilfurperum. Ólafur S. Björnsson lætur af stjórnarstörfum. Guðjón Guðmundsson, verksmiðjustjóri, tekur sæti í stjórn.

1973
Teknar eru allmargar ljósmyndir af lýsingu á ýmsum stöðum, svo sem í sjúkrahúsum, af dagsbirtu í byggingum, í frystihúsum, af flóðlýsingu bygginga og af heimsmeistaraeinvígi Spasskýs og Fischers. Ítarleg grein er rituð í félagsbréfið um Rýrnun ljóss og viðhald lýsingarkerfa.
Norrænt ljóstæknimót er haldið í Danmörku. Þátttaka frá Íslandi er allgóð. Framlag Íslands er Gegnumlýsing fiskflaka í fiskvinnslustöðvum. Ólafur S. Björnsson tekur sæti í stjórn að nýju.

1974
Á félagsfund er boðið nemendum úr ýmsum skólum í Reykjavík, m.a. úr Háskólanum, Tækniskólanum og Iðnskólanum. Starfsemi félagsins er kynnt og síðan rætt um heimilislýsingu og umferðarlýsingu. Formaður, framkvæmdastjóri og Ólafur S. Björnsson annast kynninguna.
Byggingarþjónustan flytur að Grensásvegi 11 og fylgir skrifstofa LFÍ með.
Ráðstefnan Glugginn er haldin með Byggingarþjónustunni og þar rætt um Dagsbirtu og útreikninga á henni.
Á aðalfundi tekur Karl Eiríksson, forstjóri, sæti í stjórn í stað Hans R. Þórðarsonar.
Á haustfundi er rætt um Vinnulýsingu og Lampa til vinnulýsingar. Flutningsmenn eru framkvæmdastjóri og Ólafur S. Björnsson. Framleiðendur halda sýningu á lömpum.
Félagar er alls 208 (39 + 169).
Kennsla hefst í lýsingartækni við Háskóla Íslands undir stjórn Gísla Jónssonar, prófessors.

1975
Fluttir eru fyrirlestrar fyrir félagasamtök um blómalýsingu, heimilislýsingu og íþróttalýsingu. Erindi framkvæmdastjóra um gjörlýsingarkerfi og Magnúsar Oddssonar um skólalýsingu birtast í félagsbréfi.
Formaður situr Alþjóðaþing CIE í London.

1976
Vandað yfirlit yfir eiginleika hinna ýmsu ljósgjafa er birt í félagsbréfi.
Örlygur Þórðarson tekur við sem framkvæmdastjóri, en samstarf tekst með SÍR og LFÍ um skrifstofuhald sem verður í húsnæði RR í Hafnarhúsinu.

1977
Í félagsbréfi er birtur þýddur kafli úr grein í sænska ritinu Ljuskultur: Góð lýsing einkennist af sjö þáttum.

1978
Sænskar birtutöflur eru þýddar og birtar í félagsbréfi. Félagið mælir með þeim til notkunar hér á landi.
Þráinn Sigurjónsson hefur tekið að sér uppsetningu reikninga og löggilta endurskoðun.

1979
Á aðalfundi er skoðuð sýningin „Ljósið kemur langt og mjótt“. Þór Magnússon, þjóðminjavörður, kynnir sýninguna og svarar fyrirspurnum.
Í tengslum við 100 ára afmæli glóþráðarperu Edisons er efnt til viðamikillar sýningar í Ásmundarsal við Freyjugötu. Búnaður er að verulegu leyti fenginn að láni frá Philips-verksmiðjunum í Hollandi. Einnig fást munir frá Þjóðminjasafni Íslands og víðar að. Sýningin er opnuð á afmælisdegi perunnar 21. október. Hún stendur í vikutíma og sýningargestir eru um 1500. Frásögn af sýningunni er að finna í félagsbréfi nr. 20.
Haustfundur er haldinn á 25 ára afmælisdegi félagsins 22. október. Gísli Jónsson, prófessor, flytur þar erindið Glóperan.

1980
Magnús Ágústsson, lífeðlisfræðingur frá Garðyrkjuskóla ríkisins, ritar grein í félagsbréfið um Lýsingu í heimilisgróðurhúsum. Einnig er birt þýdd skýrsla um Lýsingu á bifreiðaverkstæðum.

1981
Í stjórn er kjörinn Jón Otti Sigurðsson í stað Guðjóns Guðmundssonar.
Haldinn er fundur í Hólabrekkuskóla og þar rætt um tillögur um Reglugerð um skólalýsingu. Formaður sækir Norræna ljóstæknimótið NB-81 í Helsingfors í Finnlandi. Norræna samstarfið er talið gróskuminna er áður var.
Eyjólfur Jóhannsson, tæknifræðingur, tekur við starfi framkvæmdastjóra af Örlygi Þórðarsyni.

1982
Framkvæmdastjóri fjallar á fundi um Þróun ljósgjafa. Einnig birtist grein eftir hann í félagsbréfi um Breyttar lýsingarkröfur á skrifstofum.
Á heimilissýningu í Laugardagshöll er gefið út rit sem vekur athygli og nær góðri útbreiðslu. Edda Björnsdóttir, augnlæknir, tekur sæti í stjórn í stað Bergsveins Ólafssonar.

1983
Jakob Björnsson, orkumálastjóri, tekur sæti í stjórn í stað forvera síns, Jakobs Gíslasonar.
Félagið flytur aðsetur sitt að Hallveigarstíg 1, þar sem Byggingarþjónusta arkitekta er til húsa.
Á aðalfundi er rætt um Lýsingu fyrir aldraða og sjóndapra. Í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi er haldinn fundur um Heimilislýsingu. Framsögu hafa Finnur Fróðason, innanhússarkitekt, og Ásgrímur Jónasson, iðnfræðingur.
Formaður og framkvæmdastjóri sækja Alþjóðaþing CIE í Amsterdam. Þar kemur norræna NORDLYS-nefndin einnig saman og ræðir undirbúning norræna ljóstæknimótsins sem halda á í Reykjavík.
Lýsingartækni í Háskólanum er gerð að valgrein.

1984
Félagslögum er breytt á aðalfundi þannig að aðalstjórn skipa fimm menn. Stjórnin getur leitað eftir tilnefningum tveggja manna til viðbótar frá fyrirtækjum, félögum eða stofnunum sem aðild eiga að félaginu.
Sigurður M. Magnússon, kjarneðlisfræðingur, tekur sæti í stjórn sem fulltrúi Hollustuverndar ríkisins. Jón Otti Sigurðsson og Karl Eiríksson láta af stjórnarstörfum. Samtök tryggingarfélaga afþakka boð um að tilnefna mann í stjórn.
Framkvæmdastjóri tekur saman efni í félagsbréfið um Málmgufulampa og Sjálfvirka stýringu ljóss. Lars Veghal frá Järnkonst í Svíþjóð flytur erindi um Kröfur til lampabúnaðar.
Félagar eru alls 174 (38 + 136). Hefur þeim fækkað nokkuð vegna vangoldinna félagsgjalda.

1985
Norræna ljóstæknimótið er haldið í Reykjavík öðru sinni og nefnt NLM-85. Formaður undirbúningsnefndar er Gísli Jónsson, prófessor. Skúli Norðdahl, arkitekt, er nefndinni til sérstakrar aðstoðar. Framkvæmdastjóri er Hersir Oddsson. NLM-85 eru gerð ítarleg skil í ritum norrænu ljóstæknifélaganna, Ljuskultur, Lampetten og Lyskultur.
Norræna NB-aðferðin til útreikninga á lýsingu er kynnt í félagsbréfi en talið er líklegt að hún munu leysa ensku BZ-aðferðina af hólmi hér á landi. Með henni er tekið meira tillit til þæginda lýsingar en áður.

1986
Ólafur S. Björnson biðst undan endurkjöri til stjórnar og eru honum þökkuð mikil og góð störf. Egill Skúli Ingibergsson er kjörinn í stjórn.
Dr. Warren G. Julian, aðstoðarprófessor við Háskólann í Sydney, sem verið hefur á fyrirlestraferð í Danmörk og Svíþjóð, er fenginn hingað til að halda erindi um Lýsingu fyrir aldraða og sjónskerta.
Út kemur ný og vönduð Handbók um lýsingartækni. Bókin er eftir Lars Starby og þýdd úr sænsku af Aðalsteini Guðjohnsen. Útgefandi er Iðnskólaútgáfan. Bók þessi er sérstaklega valin af Ljóstæknifélaginu og mælt með henni bæði sem handbók og kennslubók.
Kennsla í lýsingartækni við Háskóla Íslands er aukin í tvær námseiningar.

1987
Eyjólfur Jóhannsson lætur af störfum sem framkvæmdastjóri. Ráðinn er til bráðabirgða Gauti Höskuldsson, rafmagnsverkfræðingur. Sjónstöð Íslands tekur til starfa og Ljóstæknifélagið sýnir ýmislegt efni við vígslu hennar. Ekki tekst að koma sýningunni Lýsing fyrir aldraða og sjónskerta upp á sama tíma. Kristinn Guðjónsson er kjörinn heiðursfélagi. Hann er forstjóri Stálumbúða hf. og brautryðjandi í framleiðslu flúrlampabúnaðar.
Alþjóðaþing CIE er haldið í Feneyjum og sækir formaður þingið. Stutta frásögn er að finna í félagsbréfi.

1988
Söluráðstefna, Elmässan, er haldin í Stokkhólmi. Ljósbúnaður er þar óvenjulega áberandi þáttur.
Fjórar nefndir eru að störfum innan LFÍ: útgáfunefnd, fræðslunefnd, fjáröflunarnefnd og sýningarnefnd. Sú síðasttalda undirbýr sýningu um lýsingu fyrir aldraða og sjónskerta.
Fjársöfnun og undirbúningur er hafinn að uppbyggingu ljóstæknistofu við Háskóla Ísland undir forystu Gísla Jónssonar, prófessors.

1989
Fyrsta tölublað nýs rits um lýsingu kemur út: LFÍ hefur útgáfu tímaritsins LJÓS sem er litprentað og vandað í alla staði.
Sýningin LÍF Í RÉTTU LJÓSI, sýning um lýsingu fyrir aldraða og sjónskerta, er opnuð í húsakynnum Blindrafélagsins og Sjónstöðvar Íslands. Þetta er með viðamestu verkefnum félagsins af þessu tagi. Auk formanns LFÍ er undirbúningsnefnd skipuð arkitektunum Ferdinand Alfreðssyni og Skúla Norðdahl auk forstöðumanns Sjónstöðvarinnar, Guðmundar Viggóssonar. Ólafur S. Björnsson hefur umsjón með framkvæmdum. Forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, er viðstödd opnunina, svo og heilbrigðisráðherra og landlæknir.
Norræna ljóstæknimótið NB-89 er haldið í Þrándheimi. Frá Íslandi eru þátttakendur 8, þar af 3 fyrirlesarar. Jakob Björnsson, orkumálastjóri, víkur úr stjórn og Örlygur Jónasson, rafveitustjóri, er kjörinn.
Kennsla í ljóstækni við Háskóla Íslands er aukin í 3 einingar. Húsnæði fæst undir ljóstæknistofu í VR III og er hugsuð sem bráðabirgðaaðstaða. Mestur hluti fjármuna til uppbyggingu hennar er fenginn utan Háskólans.

1990
Í tímaritinu LJÓS er m.a. fjallað um sýninguna Líf í réttu ljósi, Útreikninga í tölvum, Kennslu í lýsingartækni við Háskólann, Lýsingu í Borgarleikhúsi og NB-89 í Þrándheimi.
Ritið Líf í réttu ljósi er gefið út af LFÍ og Sjónstöð Íslands í stóru upplagi en í því er að finna myndir og texta af sýningarspjöldum samnefndrar sýningar. Ritið er selt rafveitum, gefið á biðstofur lækna og nær mikilli útbreiðslu.
Andrés Magnússon, læknir, flytur fyrirlestur um Ljósameðferð við skammdegisþunglyndi.
Félagslögum LFÍ er breytt. Aðalsteinn Guðjohnsen lætur af störfum sem formaður. Við tekur Egill Skúli Ingibergsson. Bergur Jónsson tekur sæti í stjórn.
Fundur er haldinn í Hallgrímskirkju um Þýðingu ljóssins í trúarathöfnum, Lýsingarkerfi kirkjunnar og Sjónarmið arkitekta við val ljósgjafa. Flytjendur eru séra Karl Sigurbjörnsson, Eyjólfur Jóhannson og Garðar Halldórsson, arkitekt.
Sú nýjung er tekin upp að veita viðurkenningar fyrir vönduð lýsingarkerfi. Þá er lögð áhersla á fundahöld á landsbyggðinni ekki síður en í Reykjavík.
Hafin er útgáfa Fréttabréfs með upplýsingum um ljóstæknistarf erlendis og ýmsar nýjungar á sviði lýsingartækni

1991
Ráðist er í verkefnið Dagur ljóssins í samstarfi við Sjónstöð Íslands, Félag raftækjasala og Rafmagnseftirlit ríkisins. Umfjöllunarefnið er ákveðið Heimilið – Vinnulýsing.
Viðurkenningar eru veittar fyrir lýsingarkerfi í fimm byggingum.
Háskóli Íslands fær til afnota ljóskúlu (Ulbrichtskúli) til notkunar við mælingar á lampabúnaði.
Alþjóðaþing CIE er haldið í Melbourne í Ástralíu. Enginn Íslendingur sækir þingið.

1992
Á aðalfundi flytur Árni Guðni Einarsson erindi um Götulýsingu.
Á fundi að Hótel Örk í Hveragerði flytur Magnús Ágústsson, ylræktarráðunautur, erindi um Ræktun við raflýsingu og Eyjólfur Jóhannsson um Ljósgjafa í gróðurhúsum.
Skrifstofa LFÍ hjá Byggingarþjónustunni að Hallveigarstíg er starfrækt til ársloka. Þá er Byggingarþjónustunni lokað og skrifstofa félagsins er flutt í verkfræðistofuna Rafteikningu, Borgartúni 17, þar sem formaður hefur aðsetur.
Samvinna er tekin upp við Neytendasamtökin um birtingu greina um lýsingu í Neytendablaðinu.
Valgerður Skúladóttir er kjörin í stjórn.

1993
Flutt er erindi á aðalfundi um Segulsvið og áhrif þess á mannslíkamann af þeim Vilhjálmi Rafnssyni, lækni, og Friðrik Alexanderssyni, raftæknifræðingi.
Úr stjórn ganga Ferdinand Alfreðsson, Guðmundur Viggósson og Víðir Kristjánsson. Í stjórn taka sæti Skúli Norðdahl, arkitekt, Ólafur Grétar Guðmundsson, augnlæknir og Ólafur M. Kjartansson, rafmagnsverkfræðingur.
Flutt eru erindi um Breytingu á ljósabúnaði sviðs og salar í Þjóðleikhúsinu (Guðjón Magnússon, arkitekt, Eyjólfur Jóhannsson og Jón Otti Sigurðsson), um Lýsingu í Ráðhúsi Reykjavíkur (Steve Christer og Margrét Harðardóttir, arkitektar, og Daði Ágústsson) og um Stöðu lampaframleiðslu á Íslandi.
Formaður sækir ráðstefnuna Lux Europa í Edinborg og, ásamt þremur öðrum íslenskum þátttekendum, norræna þingið NB-93 í Danmörku.

1994
Formaður sækir Nordlys-fund í Gautaborg.
Gengist er fyrir fjársöfnun vegna ljóstæknistofu í Háskóla Íslands. Egill Skúli Ingibergsson lætur af störfum sem formaður, svo og Bergur Jónsson og Valgerður Skúladóttir, stjórnarmenn. Gísli Jónsson, prófessor, verður formaður og nýir stjórnarmenn Ólafur S. Björnsson og Stefán S. Skúlason.
Skúli Norðdahl flytur á aðalfundi erindið Poul Henningsen og ljósið í tilefni 100 ára afmælis Henningsens.
Formaður minnist 40 ára afmælis LFÍ og flytur úrdrátt úr sögu félagsins. Aðalsteinn Guðjohnsen, rafmagnsstjóri og fyrrverandi formaður LFÍ, er kjörinn heiðursfélagi.
Félagar eru alls 210 ( 44 + 166). Þeim hefur nú fjölgað nokkuð.

1995
Skrifstofa félagsins er flutt í Háskóla Íslands þar sem formaður hefur skrifstofu. Útgáfustarfsemi liggur niðri á árinu.
Formaður situr Nordlys-fund í Stokkhólmi.
Hannes Kr. Davíðsson, arkitekt, er kjörinn heiðursfélagi.
Veittar eru viðurkenningar fyrir lýsingarkerfi fjögurra bygginga.
Útgáfu Fréttabréfsins er hætt en gerður samningur við Hönnunarhúsið í Hafnarfirði um útgáfu tímaritsins LJÓS. Aðeins tvö tölublöð þess hafa komið út áður (1989 og 1990).
Kennslu í ljóstækni við Háskóla Íslands er hætt.

1996
Farin er kynnisferð í mars til Philips Lighting í Eindhoven, þar sem m.a. eru skoðaðar verksmiðjur og svonefnt „Light Studio“. Þátttakendur eru 14 auk maka, alls 25 manns.
Formaður sækir samstarfsfund Nordlys í Stokkhólmi, svo og norræna ljóstæknimótið NB-96, einnig í Stokkhólmi. Hann sækir auk þess stjórnarfund LUX Europa í Arnhem í Hollandi.
Skrifstofuhald er áfram á skrifstofu formanns í Háskóla Íslands.

1997
Á fundum er rætt um Kennslu í ljóstækni: núverandi ástand og framtíðarhorfur. Framsögu hafa kennarar við Háskólann, Tækniskólann og Iðnskólann. Einnig er á fundi í boði Reykjafells rætt um Rafeindastraumfestur, auk þess sem fyrirtækið Zumtobel er kynnt. Þá ræðir Guðjón L. Sigurðsson, iðnfræðingur, um „Lýsingu Reykjanesbrautar“. Loks er efni fundar Umræður um ljósmengun með þá Þorstein Sæmundsson, stjörnufræðing, Hilmar Jónsson, tæknifræðing og Skúla H. Norðdahl, arkitekt, sem frummælendur.
Rætt er um að næsta þing LUX Europa verði haldið á Íslandi 2001.
Tímaritið LJÓS kemur út að nýju, efnismikið eftir langt hlé. Ritstjóri þess er Guðni Gíslason, innanhússarkitekt. Meðal efnis er „Mengun myrkranna“, Um straumfestur, Um Ljóstæknistofu Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands, „Hvað varð um stjörnurnar?“ og Fyrirkomulag rafmagnsöryggismála.
Formaður sækir LUX-Europa ráðstefnuna í Amsterdam, ásamt Agli Skúla Ingibergssyni og Guðjóni L. Sigurðssyni. Formaður situr fund í Nordlys-nefndinni í Kaupmannahöfn.
Félagið kemur sér upp einfaldri heimasíðu sem Guðni Gíslason hefur unnið.

1998
Ákveðið er að endurútgefa ritið Líf í réttu ljósi, um lýsingu fyrir aldraða og sjónskerta. Upplag er sérstaklega afhent Sjónstöð Íslands að gjöf.
Á fundi er rætt um Liti og ljós. Ræðumenn eru Óðinn Þórarinsson, rafmagnsverkfræðingur og Hilmar Þór Björnsson, arkitekt, auk formanns LFÍ.
Nordlys-fundur er haldinn í Reykjavík.
Á fyrri fræðslufundi ársins flytur Robert Klarén hjá AB Fagerhult í Svíþjóð erindið Hönnun lýsingar með aðstoð tölvu. Sá síðari er haldinn í boði Epal þar sem fulltrúar frá Louis Poulsen fræða gesti um vöruþróun og fleira.
Hannes Helgason er kjörinn í stjórn í stað Stefáns S. Skúlasonar.
Farin er kynnisferð í september til Þýskalands og Austurríkis. Skoðaðar eru verksmiðjur og kynning fer fram hjá Osram og Zumtobel.
Jón Otti Sigurðsson, tæknifræðingur, flytur erindi á aðalfundi um Lýsingu í Hafnarborg og Lýsingu í myndlistarhúsum.

1999
Þórður Guðmundsson, rafmagnsverkfræðingur, er kjörinn formaður á aðalfundi, en Gísli Jónsson, prófessor og formaður félagsins er þá nýlátinn. Úr stjórn ganga Skúli Norðdahl og Ólafur Grétar Guðmundsson. Nýir stjórnarmenn eru Ferdinand Alfreðsson, arkitekt, Eiríkur Bogason, framkvæmdastjóri Samorku og Jens Þórisson, augnlæknir.
Samið er við Guðna Gíslason um vinnu fyrir félagið sem Gísli Jónsson hafði sinnt áður.
Ný og endurbætt heimasíða er tekin í notkun í nóvember.
Á aðalfundi kynnir Egill Skúli Ingibergsson Nýjungar í rannsóknum á lýsingu.

2000
Tímaritið LJÓS kemur út eftir nokkurt hlé. Meðal efnis er: Lampaframleiðsla Ársæls í 50 ár, Breytt viðhorf til lýsingar eftir Egil Skúla Ingibergsson, Reglugerð kostar eftir Guðjón L. Sigurðsson, Ljósa- og rafmagnsstýring eftir Svanbjörn Einarsson, tæknifræðing, Dagsbirtuglýja, þýdd grein eftir Ali A. Nassal og Hvaða dýr sjá liti rétt eftir Jurgen Pind.
Norræna ljóstækniþingið NB-2000 er haldið í september í Finnlandi. Fimm félagsmenn LFÍ sækja þingið.

2001
LUX Europa 2001 er haldið í Reykjavík í júní. Fullyrða má að sjaldan eða aldrei hafi Ljóstæknifélagið ráðist í jafnviðamið verkefni. Egill Skúli Ingibergsson og Ólafur Grétar Guðmundsson annast skipulagningu og njóta aðstoðar Guðna Gíslasonar við framkvæmdina. Ráðstefnuna sækja um 200 manns frá 29 löndum.
Félagaskrá, útgáfumál og heimasíða eru í höndum Guðna Gíslasonar.
Ólafur Grétar Guðmundsson tekur við af Agli Skúla sem tengiliður við LUX Europa.
Fjórir félagsmenn sækja Nordlys-fund í Árósum, fyrstu norrænu námstefnuna sem norrænu ljóstæknifélögin standa fyrir.
Óformlegar viðræður fara fram við Háskóla Íslands um framtíð ljóstæknistofu en engin svör fást.
Arne Thorsted frá Philips Lys í Danmörku er fenginn til að koma og halda fyrirlestur um Lýsingarhönnunarforritið FABA-Light.
Á aðalfundi flytur Hjalti Lúðvíksson erindi um Hönnun garðyrkjulýsingar.

2002
Nordlys-fundir eru ekki sóttir. Rætt er um að hætta því fundahaldi og endurskoða samstarfið.
Daði Ágústsson, tæknifræðingur, er kjörinn formaður. Nýir stjórnarmenn eru Hilmar Jónsson, varaformaður, Jón Ísaksson Guðmann ritari, og Svanbjörn Einarsson, meðstjórnandi.
Lýsing í Bláa lóninu er tilnefnd til norrænu ljóstækniverðlaunanna. Lærdalsgöngin í Noregi verða hlutskörpust. Guðni Gíslason, innanhússarkitekt er fulltrúi félagsins í dómnefndinni.

2003
Hannað er nýtt merki félagsins. Höfundur er Ferdinand Alfreðsson, arkitekt. (Fyrra merkið var hannað við stofnun LFÍ af listakonunni Barböru Árnason).
Á aðalfundi útskýrir Haukur Magnússon, hönnuður hjá Rafhönnun, lýsinguna í húsi Orkuveitu Reykjavíkur. Fjölsóttur fyrirlestur, Power of Light, er haldinn í samvinnu við Arkitektafélagið. Fyrirlesarar eru frá Bretlandi og Bandaríkjunum.
Unnið er að því að koma á vandaðri kennslu í lýsingarkennslu við Iðnskólann.
Mikil vinna er lögð í að semja Reglur um vega- og gatnalýsingu. Samráð er haft við Staðlaráð Íslands en nýir Evrópustaðlar á þessu sviði munu taka gildi 2004.
Haldin er vel sótt Námstefna um lýsingu á vegum og götum. Formaður sækir fundi Nordlys í Osló og Stokkhólmi.
Tvö tölublöð af ritinu LJÓS koma út. Í þeim er m.a. að finna þetta efni: Götulýsing og ljósmengun, Lýsing og hönnun, Nordlys ráðstefnur, Framfarir í innanhússlýsingu – nýr Evrópustaðall, Rafmengun, Smáralind, Lýsing í máli og myndum, Götuljós dimmuð í einu þrepi, grein eftir Anders Liljefors: Kenningin… sem virk stjórnun, Lýsing í höfuðstöðvum OR, Ljósmengun í sveitinni, SIVRA – lýsingarkerfi fyrir breytilega lýsingu með sjálfvirkri stýringu (P. Ceregioli) og Ljósdióðu-skjáir.
Megnið af gögnum Ljóstæknifélagsins glatast þegar ljóstæknistofan er tekin undir aðra starfsemi innan Háskólans. Þrátt fyrir ítarlega leit finnast aðeins nokkrir mælar í eigu félagsins.

2004
Jens Þórisson, augnlæknir, flytur erindið Sjónin á félagsfundi.
Formaður sækir fund í Nordlys-nefndinni.
Formlegt samkomulag er gert við Guðna Gíslason um ýmsa vinnu fyrir félagið, félagatal, innheimtu, umsjón með heimasíðu og fleira.
Ritið Neyðarlýsing er gefið út í samstarfi við Brunamálastofnun og fjölsótt námskeið um efnið er haldið. Ritið Götu- og veglýsing, – Reglur um lýsingu gatna og vega, kemur út í maí. Auk Ljóstæknifélagsins standa Gatnamálastofa, Vegagerðin og Samband íslenskra sveitarfélaga að útgáfunni. Vinna við þetta rit hefur aðallega verið í höndum þriggja manna vinnuhóps sem í eiga sæti Aðalsteinn Guðjohnsen, Egill Skúli Ingibergsson og Hilmar Jónsson.
LFÍ gefur út rit um Góða lýsingu á heimilum, þýðingu á nýju dönsku riti um það efni.
Á árinu eru félagar alls 140 (35 + 105). Í stjórn sitja: Daði Ágústsson, formaður, Hilmar Jónsson, varaformaður, Ferdinand Alfreðsson, gjaldkeri, Jón Ísaksson Guðmann, ritari, Eiríkur Bogason, ritstjórnarfulltrúi og Hannes Helgason og Jens Þórisson meðstjórnendur.
Að beiðni formanns LFÍ tekur Aðalsteinn Guðjohnsen saman úrdrátt úr sögu félagsins sem hér birtist (Stiklur úr sögu LFÍ). Yfirlestur og ábendingar Ólafs S. Björnssonar og Guðna Gíslasonar nýtast vel.
Ljóstæknifélag Íslands fagnar 50 ára afmæli. Á ráðstefnu í tilefni af aldarafmæli rafvæðingar á Íslandi flytur Aðalsteinn Guðjohnsen erindið Leyndardómar ljóssins og víkur þar einnig að Ljósmenningu í 50 ár.