Þann 10.apríl næstkomandi verður námskeiðið Lærðu að höndla LED haldið í Rafiðnaðarskólanum.

Námskeiðið er opið öllum og fá félagar Ljóstæknifélagsins námskeiðið á sérstökum kjörum,
við skráningu þarf að taka fram í Annað að vera félagi í LFÍ.

Lýsing á námskeiðinu

Með tilkomu nýrrar ljóstækni og LED á markaðinn virðist enginn talar lengur um Wött
heldur lúmen og val á litarhitastigi virðist jafn flókið og að velja týpu af osti í franskri
ostabúð. Er skilgreining á ljósi orðin allt önnur í dag heldur hún var í tíð glóperu og annarra
hefðbundinna ljósgjafa?

Á námskeiðinu verður farið yfir helstu viðfangsefni lýsingarfræðinnar. Hugtökin og fræðin á
bak við litarhitastig, litarendurgjöf, ljósmagn, glýju og ljóstækni verða rædd og áhersla
verður lögð á að sýna hvernig LED ljósgjafinn hefur algjörlega breytt því hvernig hönnuðir,
verktakar og framleiðendur vinna með ljósgjafa.
Með tilkomu LED hefur ljóstækninni fleytt áfram og farið verður yfir hvernig vinna á með
þessum nýja ljósgjafa og þeim upplýsingum sem framleiðendur gefa upp fyrir lampa og
ljósgjafa á heimasíðum sínum og pakkningum.
Eins verða gömlu hefðbundnu ljósgjafarnir bornir saman við LED og helsti munur á
þessum ljósgjöfum ræddur og kannaður með sýnikennslu. Sýnikennslan er stór þáttur í að
skilja hugtökin eins og litarendurgjöf, litarhitastig, glýju, og hvernig LED ljóstæknin er ólík
hefðbundnu ljósgjöfunum eins og halógen, flúr- og glóperum.
Einnig verður farið í praktískari atriði eins og skynjun á ljósi í rými, efnisnotkun og
endurkast. Hverju þarf að huga að þegar lýsing er hönnuð í ákveðin rými og hvað þarf að
hafa í huga við sölu og uppsetningu ljósbúnaðar.
Hér er á ferðinni öflugt námskeið sem fléttar saman fræðslu og sýnikennslu á helstu
hugtökum lýsingarfræðinnar og nýtist aðilum sem vilja fræðast frekar um nýja ljóstækni,
hvernig á að vinna með LED ljósgjafa og öðlast betri almennan skilning á ljósi.

Leiðbeinandi
Rósa Dögg Þorsteinsdóttir

SKRÁNING

Rósa Dögg starfar sem sjálfstæður lýsingarhönnuður og með margra ára reynslu í lýsingarhönnun.
Hún kennir einnig lýsingarfræði í HR og Meistaraskólanum og er þekkt fyrir lifandi og fræðandi
tíma. Með þessu námskeiði deilir hún reynslu sinni og gefur hagnýt ráð sem nýtast
m.a. sölumönnum lampabúnaðar, arkitektum og hönnuðum sem vilja skilja betur notkun á ljósi,
verktökum sem sjá um uppsetningu ljósbúnaðar og þeim sem vilja fræðast almennt um ljós.