Sigurvegari í flokknum Lýsingarverkefni innanhúss er Lava Eldfjallamiðstöð, sýningarhluti

Lava center er eldfjallasýning staðsett á Hvolsvelli, í nágrenni við mörg af helstu eldfjöllum landsins. Í samvinnu við Veðurstofu Íslands og Almannavarnir veitir LAVA upplýsingar um jarðhræringar, eldgos og aðrar náttúruhamfarir á sama tíma og gestir ganga í gegnum sýninguna. Sýningin leggur upp með lifandi fræðslu um helstu gerðir íslenskra eldstöðva, tegundir gosa og hraungerðir, eldstöðvakerfi og margt fleira.

Markmið sýningarinnar er meðal annars að fá fólk til að skynja þær aðstæður á sem náttúrulegastan hátt sem fram koma á sýningunni. Til að ná fram þeim krafti sem Ísland býr yfir var notast við tækni til að framkalla ýmis náttúruleg einkenni eins og lekandi hraun, eldgos, jarðskjálfta og fleira. Sú tækni sem meðal annars var notuð voru jarðskjálftahermar, hljóð og ljós. Nokkrar af upplifunum sýningarinnar eru meðal annars 30 m langur eldfjallagangur, möttulstrókur, gjóskugangur og lekandi hraungrjót svo fátt eitt sé nefnt þar sem lýsingin gegnir meginhlutverki.

Umsögn dómnefndar
Að dómnefndar er hér á ferðinni einstakt verkefni fyrir margar sakir. Markmiðið er að veita gestum innsýn m.a. með eigin þátttöku í náttúru Íslands, jarðfræði og þann gríðarlega kraft sem býr í eldvirkni landsins. Mikið er í verkefnið lagt tæknilega og hönnunarlega og engu til sparað. Efni og ljós vinna saman sem ein heild fyrir gesti. Hér er lýsandi dæmi um það hvernig þverfagleg samvinna arkitekta, lýsingarhönnuða og sérfræðinga í margmiðlun og annarra fagaðila getur skilað stórkostlegu verki.

Til hamingju!

Lýsingarhönnuðir  
Basalt – Gagarín – Liska

Guðjón L. Sigurðsson, fh. Liska
Marcos Zotes, fh. Basalt Arkitektar
Samúel Hörðdal Jónasson, fh. Gagarín


Samstarfsaðilar og aðrir hönnuðir 

Eigandi verks:
Lava Eldjfallamiðstöð.

Tekið í notkun:
2017

Arkitektúr:
Basalt Architects

Sýningarhönnun:
Basalt Architects og Gagarín

Gagnvirk miðlun:
Gagarín

Leikmyndahönnun:
Basalt Architects

Lýsingar-/raflagnahönnun:
Liska ehf.

Handrit:
Ari Trausti Guðmundsson

Sérsmíði á sýningaratriðum:
Irma Studio

Umsjón og hönnun kerfa:
Feris

Helstu vörumerki:
Led borðar: Neopixel Led
Stjórnbúnaður: Rasperry Pi´s, Teensy drivers
Kastarar: ETC, Exton