Sigurvegari í flokki lampa og ljósabúnaðar er Eldfjallaljós

Eldfjallaljósið er hannað út frá raunverulegum landfræðilegum mælingum hæðarlína í íslensku landslagi. Lampinn er lýsandi skúlptúr staðsettur yfir móttöku í aðkomusal LAVA Eldfjallamiðstöðvarinnar á Hvolsvelli sem er 5 m hátt rými. Lampinn grípur gestsaugað við inngang og er lýsandi undirbúningur að því sem koma skal í LAVA sýningunni.  Lampinn er byggður upp af 8 hlutum, lagskiptum hæðarlínum. Hver hluti hefur sitt sérstæða form. Hann er byggður úr svörtum álramma með ljóshlíf úr hvítu plexígleri. Óslitið Led ljós með 3000K litahitastigi er komið fyrir inní hverjum álramma. Umfang lampans er 4,2m x 4,5m svæði. Heildarlengd ljósgjafans er 70 metrar. Lampinn er hengdur í loftið með stálvírum og lægsti punktur hans er 2,8 metrar frá gólfi.

Umsögn dómnefndar
Að mati dómnefndar er hér á ferðinni mjög sterk grunnhugsun í hönnun sem veit á gott.  Innblástur að hönnun og útliti er fenginn úr meginþema þeirrar sýningar þar sem hann gegnir hlutverki sínu. Lampinn undirbýr gesti fyrir það sem koma skal og stærð hans er tilkomumikil. Formið er flókið en fullkomlega skiljanlegt í samhengi rýmisins og myndar fallega heild.  Lampinn gegnir því hlutverki sínu afar vel sem skrautmunur og áherslupunktur í sýningu sem snýst um jarðfræði Íslands og eldvirkni.

Til hamingju!

Hönnuður
Marcos Zotes, hjá Basalt Arkitektum

Samstarfsaðilar við hönnun

Basalt Arkitektar

Lýsingarráðgjöf var í höndum:
Liska

Eigandi og notandi:
LAVA Eldfjallamiðstöð 2017

Sérsmíði var í höndum:
Logoflex

Helstu vörumerki sem notuð voru:
Optimum LED Module frá LED Inc.