Vörusýningin Light+Building fór fram í Frankfurt dagana 18.-23.mars og talið er að metfjöldi íslendinga hafi heimsótt sýninguna í ár eða yfir 200 manns. Við fengum nokkra hönnuði til að segja okkur frá því helsta sem þeir upplifðu og sáu á sýningunni og ætlum við að fjalla meira um sýninguna á næstu dögum. Það er Guðjón L. Sigurðsson, lýsingarhönnuður sem ríður á vaðið og svarar nokkrum spurningum.

Hversu oft hefurðu farið á L+B?
Alltaf frá upphafi.
Hverjir voru hápunktar sýningarinnar?
Að geta átt samtöl um framtíðarþróun lýsingar- og stjórnbúnaðar og fá að taka þátt í þeirri þróun.
 Hvaða höll var mest spennandi eða kom mest á óvart?
Höll 4 mest spennandi, höll 2 kom mest á óvart fyrir hvað hún var óspennandi.
 Hvaða bás var flottastur?
Trilux básinn fyrir frábæra framsetningu á upplýsingum og að sýna okkur ekki bara lampa og iGuzzini fyrir myrkraherbergið þó það sé orðið „gamalt“.
Hvað er ávinningurinn á að fara á svona sýningu? 
Mekka fagsins þar sem maður fær nýjungarnar beint í æð og fá tækifæri til að hitta kollega, bæði innlenda og erlenda.
Einhverjar hugleiðingar að lokum eftir sýninguna í ár? 
Þessi sýning staðfesti fyrir mér að þróun LED hefur hægt á sér, gæðin eru til staðar og þróun stjórnbúnaðar hefur tekið stökk fram á við.  Skilgreiningar eru að breytast og ný viðmið eru að detta inn sem voru ekki endilega fyrirsjáanleg.  Human Centric var slagorð í mörgum básum með mismunandi áherslum og stundum slegið fram bara til að vera með.  Sum eldri fyrirtæki hafa náð að fylgja þróuninni eftir á meðan önnur sitja eftir og ný fyrirtæki skjótast fram úr þeim.  Nú eru stýringar að keyra inn í svipað ferli eins og þegar LED kom fram fyrir um tíu árum og kominn tími til að líta út fyrir boxið í þeim efnum ef við ætlum ekki að sitja eftir í heimi gervigreindar og tilbúinna appa á næstu árum.
Guðjón L. Sigurðsson
Guðjón L. SigurðssonLýsingarhönnuður IALD hjá Lisku