Skip to main content

Nafn og heimili

1 gr. Nafn félagsins er Ljóstæknifélag Íslands, skammstafað LFÍ. Lögheimili þess, varnarþing og aðsetur er í Reykjavík.

Hlutverk

2 gr. Ljóstæknifélag Íslands er félag sem:

  • Eflir umræðu um ljós með miðlun þekkingar og reynslu.
  • Kemur fram fyrir hönd félaga sinna gagnvart opinberum aðilum, hagsmunasamtökum og hliðstæðum samtökum erlendis.
  • Stuðlar að framsækinni þróun á ljósgæðum í mannvirkjagerð á Íslandi.

Félagar

3.gr. Einstaklingar, félög, fyrirtæki og stofnanir sem lýsa stuðningi sínum við hlutverk félagsins sbr. 2. gr geta orðið félagar í Ljóstæknifélagi Íslands. Félagar skulu fara eftir samþykktum félagsins. Fullgildir félagar eru þeir einir sem sækja skriflega um inngöngu og eru í skilum við félagið.

Úrsagnir þarf að tilkynna til LFÍ. 

Nafnbótinni “Heiðursfélagi Ljóstæknifélags Íslands” má sæma félaga, eða aðra, sem til þess hafa unnið, samkvæmt einróma samþykkt félagsstjórnar.

Kosningaréttur og kjörgengi

4.gr. Hver fullgildur félagi sbr. 3.gr. hefur eitt atkvæði við atkvæðagreiðslu í félaginu.

Stjórn

5.gr. Stjórn félagsins skipa 5 manns::

Formaður
Ritari
Gjaldkeri
2 meðstjórnendur

Stjórnarkjör fer fram á aðalfundi ár hvert og tekur ný stjórn til starfa í fundarlok. Stjórnin setur sér starfsreglur í samræmi við lög þessi og skulu þær vera aðgengilegar félagsmönnum.  Á aðalfundi skal kjörnefnd og/eða fundarmenn tilnefna kjörgengna félaga til formanns, stjórnar, kjörnefndar og skoðunarmanna reikninga. Segi stjórnarmaður sæti sínu lausu á kjörtímabilinu skal kjósa á næsta aðalfundi stjórnarmann í stað hans til loka kjörtímabils hans. 

Formaður er kjörinn sérstaklega en 4 stjórnarmenn án tilnefningar í tiltekin stjórnarsæti. Kjörtímabil formanns og stjórnarmanna er 2 ár.

Oddatöluár skulu kjörnir 2 stjórnarmenn, hitt árið formaður og 2 stjórnarmenn. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum eftir aðalfund.

Stjórnin er ákvörðunarhæf ef meirihluti hennar situr fund. Við atkvæðagreiðslu ræður afl atkvæða, en að jöfnu atkvæði formanns. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

Kjörnefnd skipa 2 félagar sem ekki sitja í stjórn félagsins. Þeir eru kjörnir á aðalfundi, einn á hverju ári til tveggja ára.

Fjármál

6.gr. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Árgjöld skal ákveða á aðalfundi fyrir yfirstandandi ár. Félagsgjöld skulu innheimt árlega. Tekjur félagsins eru árgjöld félaga, framlög fyrirtækja, stofnana og samtaka, vextir, almennar rekstrartekjur og ýmsar aðrar tekjur. Félagsmenn njóta ekki fjárhagslegs ávinnings af starfsemi félagsins. Reikninga síðasta árs skal leggja fyrir aðalfund til samþykktar.

Reikningar skulu skoðaðir af kjörnun skoðunarmönnum. Aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn reikninga. Gilda sömu reglur um kjör þeirra og kjörnefndarmanna.

Lagabreytingar

7.gr. Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins og skal í fundarboði aðalfundar geta þeirra breytinga sem bera á upp. Breytingar ná því aðeins samþykki að þær hljóti 2/3 greiddra atkvæða á fundinum.

Fundir

8.gr. Aðalfundur skal haldinn fyrir lok maímánaðar ár hvert og skal til hans boðað skriflega eða rafrænt til allra félagsmanna með minnst 2 vikna fyrirvara með sannarlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. 

Á dagskrá aðalfundar séu eftirtalin atriði í þessari röð:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu starfsári
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar
  5. Ákvörðun félagsgjalds
  6. Kosning stjórnar
  7. Kosning kjörnefndarmanna og skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál

Almenna félagsfundi skal halda þegar stjórnin telur tilefni til eða þegar minnst 3 stjórnarmenn eða tíundi hluti félaga krefjast þess. Kröfu um fund skal leggja skriflega fyrir stjórn og skal kröfunnar getið í fundarboði. Almenna félagsfundi skal boða skriflega og/eða rafrænt með hæfilegum fyrirvara.

Við almennar atkvæðagreiðslur á fundum félagsins ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða. Atkvæðagreiðsla skal vera skrifleg ef þess er óskað. 

Halda skal gerðabækur um alla félags- og stjórnarfundi. Félagsfundargerðir skal lesa upp á næsta félagsfundi ef þess er óskað, en stjórnarfundargerðir skal leggja fyrir næsta stjórnarfund til samþykktar.

Nefndir

9.gr. Stjórn félagsins getur skipað nefndir til sérstakra verkefna. Tilnefningar í nefndir séu skriflegar og fylgi þeim lýsing á verkefni svo og tímamörk.

Framkvæmdastjórn

10.gr. Framkvæmdastjóra félagsins skal stjórnin setja skriflega starfslýsingu.

Félagsslit

11.gr. Félaginu má slíta með lagabreytingu og renna þá eignir þess t.d. til aðila sem hafa hlutverk hliðstæð þeim, sem lýst er í 2. gr. þessara laga.

Gildistími

12.gr. Lögin voru samþykkt á aðalfundi 28. maí 2019

Hlutverk

Ljóstæknifélag Íslands er félag sem:

  • Eflir umræðu um ljós með miðlun þekkingar og reynslu.
  • Kemur fram fyrir hönd félaga sinna gagnvart opinberum aðilum, hagsmunasamtökum og hliðstæðum samtökum erlendis.
  • Stuðlar að framsækinni þróun á ljósgæðum í mannvirkjagerð á Íslandi.
Félagar

Einstaklingar, félög, fyrirtæki og stofnanir sem lýsa stuðningi sínum við hlutverk félagsins geta orðið félagar í Ljóstæknifélagi Íslands.