Nafn og bakgrunnur

Anna Kristín Guðmundsdóttir, alin upp í Breiðholtinu í Reykjavík, umhverfis- og lýsingarhönnuður.

Draumur minn hafði verið frá því ég var krakki að verða arkitekt og fannst mér ekkert jafn skemmtilegt og að skoða fasteignaauglýsingar og spá í umhverfinu í kringum mig. Eftir útskrift af viðskiptabraut í Verzlunarskóla Íslands ákvað ég að fylgja draumnum mínum og halda allt aðra leið en bekkjarsystkini mín. Ég ferðaðist um tíma þar sem ég naut þess að upplifa mannlíf og staðaranda í borgum Evrópu en svo fór ég að undirbúa Portfolio möppuna mína til að sækja um í listnámi. Ég komst ekki inn í það nám sem ég sótti um en lét það ekki stoppa mig og ákvað að fylgja plani B og hóf nám í umhverfisskipulagi í Landbúnaðarháskóla Íslands. Verslunarskólamærin fluttist því á Hvanneyri fyrir námið og reyndist sú ákvörðun vera ein besta ákvörðun lífs míns. Umhverfisskipulag er grunnnám í landslagsarkitektúr og skipulagsfræðum og er mjög fjölbreytt og skemmtilegt nám. Þarna hafði ég fundið nám sem hentaði mér og mínu áhugasviði og ekki skemmdi fyrir náttúrufegurðin og kyrrðin á Hvanneyri.

Eftir útskrift frá Landbúnaðarháskólanum flutti ég með sambýlismanni mínum á herragarð í útjaðri Stokkhólms. Þar hóf ég M.Sc. nám sem kallast Architectural Lighting Design í KTH – Konunglega Tækniháskólanum í Stokkhólmi. Ég skilaði meistararitgerðinni minni síðasta sumar og flutti þá aftur heim til Íslands, og alla leið í Svarfaðardalinn! Þar bý ég á sveitabæ en sæki vinnu inn á Akureyri þar sem ég vinn við skipulagsgerð á Teiknistofu Arkitekta. Við erum að vinna að flottum skipulagsverkefnum fyrir hin og þessi sveitarfélög en ég er stolt af því að segja að við innleiddum ljósvistarskipulag í eitt deiliskipulagsverkefnið okkar þar sem ég setti fram leiðbeinandi skilmála um útilýsingu. Starfið er tímabundið og vonast ég til að halda áfram á sömu braut hér á Norðurlandinu, og vonandi vinna meira að lýsingarhönnun.

Afhverju ákvaðstu að læra lýsingarhönnun?

Í náminu á Hvanneyri kviknaði áhugi minn á lýsingarhönnun. Við unnum ýmis hönnunarverkefni, allt frá hönnun bæjarrýma, bæjarskipulag og hönnun stærri landssvæða. Mér fannst að útilýsing ætti að vera einn stærsti partur af hönnun minni því meirihluta árs nýtum við umhverfi okkar þegar það er myrkur úti. Í raun og veru er útilýsing forsenda mannlífs í skammdeginu. Mig langaði að læra meira um lýsingu og fór að leita eftir námi og fann þá mastersnámið í Stokkhólmi og ákvað að fylgja áhuganum og takast á við nýjar áskoranir og tækifæri.

Hvernig var námið í KTH

KTH er ótrúlega stór skóli á stóru háskólasvæði rétt við miðbæinn í Stokkhólmi. Þrátt fyrir að vera stór skóli er starfsfólk persónulegt og mjög vinalegt. Fáir kennarar eru við lýsingarhönnunardeildina og eru allir nemendur jafn mikilvægir í þeirra augum. Kennararnir voru ekki sænskir og því fór námið fram á ensku enda var bekkurinn mjög alþjóðlegur – nemendur frá nær öllum heimsálfunum! Frumkvöðullinn Jan Ejhed, stofnandi námsins, kom stundum og var með fyrirlestra hjá okkur en aðrir gestakennarar voru til dæmis, Kai Piippo sem hefur verið að gera flotta hluti sem yfirhönnuður hjá ÅF Lighting. Við vorum svo heppin að fá að vera í kennslustofu á efstu hæð með útsýni 360° um Stokkhólm þar sem við gátum upplifað breytt birtuskilyrði og töfra dagsbirtunnar í gegnum skóladaginn.

Helstu kostir námsins í KTH er uppsetning þess að mínu mati. Námið er skipt upp í fjóra áfanga eftir þema þ.e. Light and Humans, Light and Outdoor Spaces, Light and Science og Light and Indoor Spaces. Aðeins einn áfangi er kenndur í einu sem mér fannst frábært fyrirkomulag. Öll kennsla og verkefnavinna er sett fram í stundatöflu á dagvinnutíma sem þýddi að við gátum unnið í hópverkefnum á skólatíma. Það var því borin virðing fyrir einkalífi fólks og frítíma sem er of sjaldgæft í hópavinnu í íslenskum háskólum.

Í lok hvers áfanga áttum við að skila vinnubók eða Workbook eins og þau kölluðu það. Í vinnubókinni áttum við að gera grein fyrir öllu því sem farið var yfir í hverjum áfanga, og skiluðum við einni vinnubók fyrir hvern áfanga. Þar áttum við að segja frá þeim hugmyndum og fræðum sem kynnt voru fyrir okkur á fyrirlestrum, gera grein fyrir verkefnavinnu og rannsaka frekar það sem vakti áhuga okkar. Mér fannst ferlið að skrifa vinnubókina mjög lærdómsríkt og finnst mér frábært að eiga þessar vinnubækur til að glugga í því þar finn ég heimildir og umfjöllun úr náminu.

Áföngunum lauk svo ekki með lokaprófi heldur var jöfn og þétt verkefnavinna og yfirleitt eitt stórt lokaverkefni. Í áfanganum Light and Indoor Spaces var lokaverkefni okkar að hanna lýsingu í skrifstofubyggingu í Uppsala og fengum við svo að kynna verkefnin fyrir arkitektum og lýsingarhönnuðum sem eru að vinna þetta verkefni hjá White arkitektastofunni í Stokkhólmi. Það var virkilega lærdómsríkt og krefjandi að kynna hönnunarverkefni fyrir þeim sem er að gera verkefnið í raun og veru og þótti okkur skemmtilegt að bera saman útkomurnar.

Í áfanganum Light and Outdoor Spaces tók bekkurinn minn þátt í ljósahátíðinni Nattljus í Eskilstuna í Svíþjóð. Það var ótrúlega lærdómsríkt að vinna verkefni frá hugmynd að raunveruleika. Við fórum í viku til Eskilstuna þar sem unnið var alla daga og fram á kvöld að því að undirbúa og setja upp lýsingu í ýmsum bæjarrýmum. Hópurinn minn fékk úthlutað torgi fyrir framan kvikmyndahús og gjörbreyttum við andrúmsloftinu í rýminu. Rauður litur var allsráðandi sem væri kannski of sterkur og ráðríkur litur fyrir hversdaginn, en virkaði vel fyrir ljósahátíðina. Við tókum eftir að fólk ferðaðist öðruvísi á torginu fyrir og eftir innsetninguna okkar, áður stöldruðu fáir við og enginn vogaði sér að ganga inn á mitt torgið, en á meðan hátíðinni stóð tókum við eftir að fólk stoppaði á miðju torginu og settist á bekkina til dæmis. Það var áhugavert að sjá hvernig við breyttum stemmingunni í almenningsrýminu. Annar hópur úr bekknum mínum fékk göngusvæði í undirgöngum til að vinna með. Þar var mikill hávaði og mengun og almennt óaðlaðandi bæjarrými. Hópurinn kom upp ljósum þannig að þegar fólk gekk framhjá varpaði ljósið litríkum skuggum á vegginn í undirgöngunum. Það var stórkostlegt að sjá þegar fólk beið í röð eftir að fá að leika sér að litaskuggunum. Fjölskyldur, unglingar, börn, einstaklingar…allir biðu af eftirvæntingu eftir að röðin kæmi að sér. Í óaðlaðandi undirgöngum tókst hópnum að útbúa aðlaðandi bæjarrými og fá fólk til að taka virkan þátt og gleyma sér um stund! Magnað!

Hvaða ráð geturðu gefið fólki sem hefur hug á að læra lýsingarhönnun?

Helsta ráð sem ég get gefið þeim sem hefur áhuga á að læra lýsingarhönnun er að vera opinn fyrir öllum þeim fjölmörgu eiginleikum lýsingarhönnunar. Það var skemmtilegt að sjá í lok námsins þegar við fórum að velja viðfangsefni fyrir meistararitgerðirnar okkar hvað viðfangsefnin voru ótrúlega ólík og fjölbreytt. Dæmi um viðfangsefni í lokaritgerðum bekkjarsystkina minna eru:

– Hvernig lýsing í almenningsrýmum getur nýst sem miðill til að miðla og vekja athygli á alheimsvandamálum.

– Lýsing í kennslustofum grunnskóla og möguleg áhrif á líðan og námsgetu nemenda.

– Hvernig útilýsing getur hvatt vegfarendur til félagslegra athafna í almenningsrýmum.

– Áhrif lýsingar á öryggistilfinningu á brautarpöllum lestarstöðva í Stokkhólmi.

– Áhrif dagsljóss á rýmisskynjun og upplifun rýmis.

– Möguleikar þess að koma fyrir sólarrafhlöðu lýsingu í fátækraþorpum í Kenía.

Hvaðan færðu innblástur í hönnun þína og hvernig lýsirðu þinni hugmyndafræði eða nálgun á verkefni?

Fyrstu vikurnar í skólanum bentu kennarar okkar á að horfa vel í kringum okkur og velta fyrir okkur hvaðan ljósið kemur. Þetta opnaði aldeilis augun mín og horfi ég á skuggahreyfingar og endurkast nú orðið ósjálfrátt hvar sem ég er. Mér finnst ekkert eins jafn góð hugleiðsla og að horfa á endurkast ljóss af vatni, hreyfingin er dáleiðandi. Ég fæ innblástur frá umhverfi mínu og kraftinum í hreyfingum náttúrunnar, vindurinn og dagsljósið er svo margbreytilegt og orkumikið.

Í verkefnum mínum vil ég skapa lífvænlegt umhverfi fyrir okkur. Huga þarf vandlega að styrkja rýmisupplifun, hvort sem við erum úti eða inni. Ég vil að umhverfið dragi okkur að og hvetji okkur til að vera andartak lengur úti heldur en við ætluðum. Við höfum svo gott af því að staldra við í amstri dagsins, gefa sjálfum okkur augnablik án streitu, og ég tel að lifandi og notalegt umhverfi styðji það.

Segðu okkur aðeins frá lokaverkefni þínu frá KTH 

Hugmyndin að lokaverkefninu mínu kviknaði snemma í náminu þegar ég fór að leita í minningarnar að mínum fyrstu upplifunum sem tengjast lýsingu. Þá rifjaði ég upp sterka tilfinningu sem var blanda af gleði og ótta og lituð af sterku ímyndunarafli barns. Ég mundi eftir mínum uppáhalds stað sem barn en það var leikvöllurinn næst heimili mínu. Þar hitti ég vini nær alla daga og átti góðar stundir en þegar dimma tók á veturnar varð ég hrædd við leikvöllinn. Ég man að ég hljóp alltaf framhjá leikvellinum með hjartað í buxunum og ímyndunaraflið á fullu, ég var svo hrædd við það sem leyndist í myrkrinu.

Ég vildi því skoða leikumhverfi barna með tilliti til minnkandi birtu í skammdeginu. Hvernig hægt væri að nýta útilýsingu til að styrkja ásýnd leikvalla og skólalóða og hafa jákvæð áhrif á möguleika og leiktíma barna á Íslandi. Lokaverkefnið mitt fjallaði því um það verkfæri sem hönnuðir hafa í að nýta útilýsingu til að styrkja og auðga leikumhverfi barna. Verkefnið er á ensku og kallast Outdoor Lighting in Icelandic Schoolyards: The Importance of Outdoor Lighting during the Dark Winter Days. Leiðbeinandi minn var Darío Núñez og er ég virkilega þakklát fyrir samstarfið við hann.

Í verkefninu skoðaði ég tengslin milli útiveru og vellíðunar en það er virkilega jákvætt hvað útivera er enn stór hluti af dagsskipulagi barna í grunnskólum á Íslandi. Það sem er þó sérstakt hér er að fyrir hádegi í ákveðinn tíma á veturnar eru börnin úti í frímínútum þegar enn er dimmt úti. Því er útilýsing einstaklega mikilvæg á skólalóðum fyrir börnin til að vera örugg þannig að þau sjái hindranir, sjáist og sjái aðra, en einnig er útilýsing mikilvæg til að styrkja rýmisupplifun skólalóðarinnar og styðja við útlit og gæði leikumhverfis barnanna, sem jafnvel getur haft jákvæð áhrif á ímyndunarafl þeirra og vellíðan. Útilýsing á skólalóðum þarf að gefa ákveðna birtu á leiksvæðin en einnig er hægt að útbúa aðdráttaröfl innan lóðarinnar til dæmis með lituðu ljósi eða lýsa upp leiktækin eða gróðurinn. Mikilvægt er einnig að huga að efnisnotkun við hönnun skólalóða, mætti gólfflöturinn vera úr ljósari efnum til að gefa meira endurvarp til dæmis?

Þar sem um ritgerð var að ræða tók ég viðtöl við kennara og starfsfólk í tveimur grunnskólum í Reykjavík. Spurningarnar tengdust vellíðan barnanna í skammdeginu og hvort starfsfólk tæki eftir breyttum námsárangri hjá nemendum, sem mögulega tengdist dimmari morgnum. Einnig ræddum við um núverandi lýsingu á skólalóðum, mikilvægi skólalóðanna í skólastarfinu og möguleika útilýsingar. Kennarar tóku ekki eftir dvínandi námsárangri yfir vetrartímann en tóku eftir breytingu í hegðun og vellíðan. Börnin væru oft þreyttari á morgnanna yfir veturinn og latari við að fara út, sem auðvitað mætti einnig rekja til veðurs. Viðmælendur voru sammála um að skólalóðin væri mjög mikilvægur þáttur í skólastarfinu og að skólalóðin væri ekki einungis notuð í frímínútur heldur líka til útikennslu og því væri mikilvægt að umhverfið væri skapandi og skemmtilegt.

Ég er að vinna í að setja upp heimasíðu með portfolio, en þangað til má fylgjast með mér á Instagram

Anna er ein af þeim Íslendingum sem hafa sérmenntað sig í lýsingarhönnun erlendis og bætist því í stækkandi hóp lýsingarhönnuða hér á landi. Ljóstæknifélagið þakkar Önnu kærlega fyrir að gefa sér tíma fyrir viðtalið og lán á myndum og óskar henni velfarnarðar í starfi.