Gamlar minningar

Ólafur S. Björnsson raffræðingur

„Undir einu erindi á málþingi Eflu rifjaðist upp fyrir mér verkefni sem ég vann við upp úr miðri síðustu öld á Verkfræðideild Rafmagnsveitu Reykjavíkur, sem þá var til húsa á 4. hæð í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík. Verkefnið var að skipuleggja (hanna!) götulýsingu í Háaleitishverfið í Rvík sem þá var í byggingu. Vinnugögnin voru götukort í mælikvarða 1:500 sem tyllt var á teikniborð og „götuljósastólpar“ gerðir úr pappírsklemmum.
Stólpunum var stungið í kortið með tilliti til gatnamóta, innkeyrsla, gangbrauta og annars í umhverfinu. Alvöru stólparnir voru 7 metra háir með armi, ljósbúnaðurinn steyptir málmhausar með hvítri opinni plastljóslíf frá Reykjalundi og ljósgjafinn 200 W glópera. Svo var fengin rafmagns samlagningarvél að láni úr næstu deild til að klára kostnaðaráætlunina. Staðsetning stólpanna við gatnamót var auðvitað útpæld, en svo var breytt yfir í hægri umferð og hvað þá?

Vona að þið hafið nokkra skemmtun af !“

Um leið og við þökkum Ólafi fyrir einstaklega skemmtilega sögu að þá hvetjum LFÍ félaga til að senda okkur skemmtilegar minningar til birtingar hér á síðunni.