Skip to main content

Aðalfundur 2020

By September 21, 2020Fréttir

Kynntu þér ársskýrslu stjórnar LFÍ starfsárið 2019-2020

Aðalfundur Ljóstæknifélags Íslands var haldinn í Rafmennt fimmtudaginn 16.september. Fundurinn var eins þéttsetinn og hægt er á tímum Covid 19 eða með 2ja metra millibili á milli allra fundargesta. Upphaflega átti fundurinn að fara fram í vor eins og venja er, en vegna útbreiðslu Covid 19 var fundinum frestað.

Dagskrá var hefðbundin samkvæmt félagssamþykktum LFÍ.

Fundurinn byrjaði að kjósa Guðjón L. Sigurðsson sem fundarstjóra og Örn Guðmundsson sem fundarritara. Réttmæti fundar var samþykkt. Rósa Dögg Þorsteinsdóttir formaður stjórnar fór yfir helstu verkefni stjórnarársins 2019-2020. Yfirlit yfir helstu verkefni stjórnar má finna í ársskýrslunni í meðfylgjandi hlekk og er ávallt aðgengileg undir ársskýrslum á vef LFÍ.

Ársreikningur

Örn Guðmundsson gjaldkeri stjórnar fór næst yfir ársreikning félagsins yfirfarinn af skoðunarmönnum LFÍ. Aðalfundur samþykkti ársreikning. Ársreikning félagsins má finna neðst í frétt.

Lagabreytingar

Engar lagabreytingar voru lagðar til af stjórn né komu fram tillögur þess efnis.

Ákvörðun félagsgjalds

Engar breytingar voru lagðar fyrir um félagsgjöld af stjórn en félagsgjöld á fyrirtæki sem samþykkt voru á aðalfundi 2019 voru rædd á fundinum og lagt til að stjórn endurskoðaði framkvæmd og ákvörðun félagsgjalda á fyrirtæki. Einnig samþykkti aðalfundur að stjórn félagsins skoðaði afslætti fyrir ný fyrirtæki í félaginu.

Kosning stjórnar

Kosið var til nýrrar stjórnar en fráfarandi voru 3 stjórnaraðilar, 2 stjórnarmeðlimir og formaður. Þeir sem lokið höfðu sínu tímabili voru Lára Sigríður Örlygsdóttir, Örn Guðmundsson og Rósa Dögg Þorsteinsdóttir.

Rósa var endurkjörin sem formaður til eins árs í stað tveggja, Anna Sigríður Jóhannsdóttir arkitekt kemur ný inn í stjórn ásamt Helga Má Hannessyni, lýsingarhönnuði.

Ljóstæknifélagið býður Önnu og Helga kærlega velkomin í stjórn félagisns og við þökkum Erni og Láru kærlega fyrir störf sín í þágu félagsins.

Stjórn LFÍ árið 2020-2021 er því þannig skipuð:
Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, lýsingarhönnuður og eigandi Ljósark
Reynir Örn Jóhannsson, lýsingarhönnuður og eigandi Lisku
Kristján Sigurbergsson, framkvæmdastjóri SART og viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI
Helgi Már Hannesson, tækniteiknari og lýsingarhönnuður hjá Umsjá ehf.
Anna Sigríður Jóhannsdóttir, arkitekt FAÍ og eigandi VA arkitekta

Stjórn LFÍ 2020-2021 

Kjörnefnd

Guðjón L. Sigurðsson var endurkjörinn kjörnefndarmaður til tveggja ára, í kjörnefnd sitja þá Guðjón L. og Soffía Valtýsdóttir.

Þorvarður G. Hjaltason skoðunarmaður reikninga var endurkjörinn til tveggja ára. Þorvarður og Haukur Magnússon eru því skoðunarmenn reikninga LFÍ.

Tillögur frá aðalfundi

Nokkrar tillögur komu frá aðalfundi til komandi stjórnar, m.a tillaga að breyttu nafni Ljóstæknifélags Íslands þar sem skoða mætti að tengja það betur heitum annarra líkra félaga á norðurlöndum s.s Lyskultur. Ljuskultur og Dansk Centre for lys. Einnig skapaðist umræða um fjölgun félagsmanna og fyrirtækja í félaginu sem og umræða um félagaformið sem er í formi áhugamannafélags, og hvort félagið ætti að beita sér meira í faglegum efnum en áður hefur verið.